Færslur: 2007 September

27.09.2007 20:32

Bæn hestanna

Gefðu mér fóður svo ég sé ekki svangur og vatn þegar ég er þyrstur. Mundu eftir því, að nú eru víða á þjóðvegum komnar brýr yfir ár og læki, svo að nú get ég ekki fengið að drekka á ferðalagi eins oft og áður. Ljáðu mér hús og sæmilega hirðingu, svo að ég þurfi ekki að standa úti í vetrarfrostum og jarðleysum. Berðu mig ekki. Þegar ég er að bera þig eða þína muni þá skil ég ekki hvers vegna þú ert að berja mig. Mér finnst ég vilja þóknast þér í öllu sem ég get. Sjáðu um það að ekki sé kippt illmannlega í taumana eða látin upp í mig frosin beislismélin á vetrardag, þegar ég er beislaður.- Láttu mig ekki ganga berfættan á grýttum vegi eða svellalögum á vetrardegi. Legg þú ekki þyngri byrðar á mig en ég get borið. Hnýttu hvorki hestum né nautum í tagl mitt, slíkt hefur oft kvlaið mig og þreytt. Þrýstu mér ekki til að hlaupa hraðara en ég get,og umfram allt, lánaðu mig ekki ungum reiðgöpum eða fyllirútum. Lofaðu mér að hvíla mig þegar ég er mjög þreyttur, eða er bólginn eða með sár undan reiðverum. Allt, sem ég get unnið skal ég vinna fyrir þig með glöðu geði, einkum ef þú sýnir mér dálitla viðkvæmi og blíðu. Og þó þú berjir mig og  sýnir mér illhryssingshátt, þá skal ég samt vinna fyrir þig með góðu, ef þú ekki á endanum selur mig, þegar ég er orðinn gamall og heilsulítill, til ókunnra manna í ókunna átthaga. Styttu miklu heldur líf mitt þannig, að ég sem minnst viti af því, þegar þér virðist að ég geti ekki unnið fyrir uppeldi mínu.
Þú veist, að ég get ekki talað svo þú skiljir mig, en láttu mig ekki gjalda þess.

Ég held að stundum sé gott fyrir okkur að stoppa aðeins í amstri dagsins og pæla í hvort við hugsum nógu vel um dýrin okkar, hvort sem það er hestur, hundur eða eitthvað annað.22.09.2007 11:51

Afmæli

Hann Páll Heiðar á afmæli í dag. Til hamingju með það, Palli minn. Réttrúmlega fertugur strákurinn!
Annars er lítið um að vera þessa dagana, við komumst á hestbak í gær í blíðunni en það lítur ekki út fyrir að það verði hægt í bráð. Það er svona einn dagur í viku sem viðrar til útreiða og temjast tryppin lítið á því.
Myndin er síðan í sumar þegar það var SÓL og blíða og hestarnir ekki eins feitir! Máni og Agnarögn og Faxa-Blesi fyrir aftan.17.09.2007 22:41

Ósk og fleiri hross

Best að fara að setja inn nýlegar myndir af tryppunum okkar, Ósk veturgömul og ljósu hestfolaldi, bæði undan Mjallhvíti. Fleiri folöld fá að fylgja með enda hvert öðru fallegra. Ég skrapp í hrossasmölun í byrjun september og eru þessar myndir síðan þá, bara ekki verið tími til að setja þær inn. 

12.09.2007 15:18

Flakk

Við Sveinn Andri og Ívar vinur hans fórum í sumarbústaðaferð í Fljótshlíðina um síðustu helgi ásamt Möttu og þremur gaurum. Við kíktum á laugardeginum á bæ þar sem var verið að smala fé. Mikið stuð þar sem við gátum tekið þátt í þessu en ekki bara þvælst fyrir! Í sumarbústaðnum var nóg hægt að gera fyrir fimm peyja og m.a. voru þeir að stífla lækinn þó að veðrið léki svo sem ekkert við okkur. 
Á föstudagskvöldinu fóru reyndar Sveinn Andri og Ívar á lundapysjuveiðar og höfðu 12 saman. Mér skilst að bílstjórinn hafi veitt þær flestar en þeir voru langt fram eftir nóttu og báðir peyjarnir steinsofnaðir í bílnum.  Á laugardagsmorgninum drifu þeir sig að sleppa pysjunum áður en við fórum í flug á Bakka. Þvílíkur lúxus að þurfa ekki að skrölta með Herjólfi.04.09.2007 22:10

Ferðalag

Við fórum norður í Bárðardal um daginn og styttum okkur leið um Sprengisand. Höfðum reyndar aldrei farið þar áður og hefur fólk misjafnar sögur um veginn. Sumir höfðu farið hann alveg hræðilegan og svo alveg öfugt. Hann var reyndar alveg ágætur þegar við fórum, en alveg ótrúlegt að það skuli ekki hægt að taka út eitthvað af þessum endalausu beygjum!  Sérstaklega þar sem þetta er nú bara sandur og steinar, ekki eins og það fari mikið fyrir gróðri.  Á leiðinni voru bæði hjólreiðamenn og puttalingar. Mér finnst ekki skrítið þó að það týnist eitthvað af þeim, þeir virtust ekkert sérlega vel útbúnir. Eins gott að það var ekki þoka eða slæmt skyggni!
Á leiðinni til baka fórum við fjallabaksleið niðri,komum  við í Laugum og keyrðum síðan í Skaftártungurnar og þaðan til Víkur. Fínn sunnudagsbíltúr.  Ótrúlegt hvað kallarnir þurfa alltaf að dást að bílunum sínum!!!

  • 1
Flettingar í dag: 56
Gestir í dag: 28
Flettingar í gær: 86
Gestir í gær: 25
Samtals flettingar: 508525
Samtals gestir: 95111
Tölur uppfærðar: 17.1.2019 12:35:05


Lyngfell-Hestaleiga

Nafn:

Lyngfell

Farsími:

898-1809

Heimilisfang:

Vestmannaeyjar

Tenglar